Almannatengillinn Ingvar Örn Ingvarsson hefur snúið aftur til starfa hjá almannatengsla- og stjórnendaráðgjafafyrirtækinu Cohn & Wolfe á Íslandi. Um leið og Ingvar Örn tekur við hlutverki Guðjóns Heiðars Pálssonar, stofnanda fyrirtækisins með Grey Global Group, tekur hann sæti í stjórn sem meðeigandi. Guðjón Heiðar einbeitir sér áfram að sérfræðiráðgjöfinni og þróunarmálum fyrirtækisins og systurfyrirtækja. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Ingvar er öllum hnútum kunnugur hjá Cohn & Wolfe enda starfaði hann þar sem faglegur framkvæmdastjóri fram til 2014. Síðan þá hefur Ingvar starfað sem stjórnandi almannatengsla hjá Íslandsstofu á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina þar sem hann sinnti m.a. Inspired by Iceland herferðinni.

Árið 2016 flutti Ingvar sig svo í tímabundin sérverkefni hjá Samskipum þar sem hann starfaði náið með höfuðstöðvum félagsins og yfirstjórn í Rotterdam og öðrum tengdum félögum.

„Það er afskaplega gott að vera kominn aftur heim," segir Ingvar. „Bakgrunnur minn er í fyrirtækjasamskiptum, alþjóðatengslum og almannatengslum og síðastliðin 15 ár hef ég átt farsæla faglega aðkomu að mörgum stærstu verkefnum á okkar sviði hér innanlands sem erlendis. Það er spennandi að ráða yfir öllu sem til þarf í slíka vinnu.

Alþjóðleg almannatengslastofa sem býr yfir víðtækasta þekkingarnetinu undir hatti WPP samsteypunnar og skotheldri aðferðafræði hefur sjálfkrafa aðdráttarafl. Þekkinguna nýtum við í þágu viðskiptavina til að upplýsa hagaðila. Þetta er því staðurinn fyrir mig frá faglegum sjónarhóli.“