Það var fátt sem stóð uppi eftir brunann á Hótel Valhöll á Þingvöllum í gær. Einungis voru uppistandandi steinveggir í norðurenda hússins og hluti gafla þar ofaná. Í dag var svo unnið við að rífa niður það sem eftir er af rústunum og aka því á brott. Rætt hefur verið um að tyrfa yfir grunn hússins eins fljótt og kostur er. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna lagði leið sína á Þingvelli í dag til að skoða ummerki brunans. Enn mátti finna glóð í jarðvegi á lóð hótelsins um miðjan dag í dag.

Eldurinn kom upp í loftræstistokki frá eldhúsi síðdegis í gær. Starfsfólk gerði allt sem í þeirra valdi stóð til að ná niðurlögum eldsins en fékk ekki neitt við ráðið, né heldur slökkvilið eftir að það kom á staðinn, enda varð suðurálma hússins alelda á örskömmum tíma. Engin slys urðu á fólki, en hótelbyggingin er gereyðilögð og því ljóst að ekki verður rekstur á þessum stað í bráð.

Saga Hótels Valhallar er rakin aftur til loka 19. aldar. Var húsið fyrst reist á svonefndum Völlum nærri Köstulum. Það var svo hlutað sundur og flutt á sleðum vestur yfir Öxará á núverandi stað veturinn 1928-1929.  Í gegnum árin hefur  verið byggt við húsið og gerðar á því margvíslegar endurbætur.

Ríkissjóður keypti Valhöll árið 2002 á 200 milljónir króna.  Árið 2005 var gerður leigusamningur við núverandi rekstraraðila fyrir veitingarekstur og gistiþjónustu. Hugmyndir voru uppi um að rífa húsið þar sem það þótti ekki hafa neitt sögulegt gildi á þessum stað.