Ingvi Björn Bergmann tók nýverið við sem sviðsstjóri endurskoðunar Deloitte. Ingvi Björn hóf störf hjá Deloitte árið 2004 og varð eigandi árið 2013, en árin 2010-2012 starfaði Ingvi Björn hjá Deloitte í Kaupmannahöfn. Þá var Ingvi Björn fjármálastjóri Kynnisferða árin 2015-2017, meðdómari hjá Héraðsdom Reykjavíkur árið 2014 og stundakennari í viðskiptafræði 2009 til 2014.

Ingvi Björn hefur umfangsmikla reynslu af endurskoðun og stjórnun endurskoðunarverkefna hjá stórum félögum, bæði hér heima og erlendis. Eins hefur Ingvi Björn sinnt fjölbreyttri ráðgjöf á sviði fjármála, reikningsskila og skattamála fyrir viðskiptavini Deloitte.

Ingvi Björn hefur verið löggiltur endurskoðandi frá árinu 2008, en hann er með Cand. Oecen frá Háskóla Íslands í viðskiptafræði frá árinu 2006 og stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands.

„Það er mikill akkur að fá Ingva Björn inn í stjórnendahópinn. Ingvi Björn hefur viðamikla reynslu af því að þjónusta viðskiptavini Deloitte þvert á svið félagsins. Þá er hann bæði drífandi og með skýra sýn á heildarmyndina. Ég hlakka til að vinna að áframhaldandi vexti Deloitte með honum,“ segir Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte.