Ingvi Jökull Logason hefur keypt alla hluti í auglýsingastofunni H:N Markaðssamskiptum og er þar með orðinn eini eigandi stofunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Ingvi Jökull átti í fimmtán ár þriðjungshlut í H:N Markaðssamskiptum á móti Ragnheiði K. Sigurðardóttir og Ólöfu Þorvaldsdóttur þar til gengið var frá kaupunum á hlut þeirra. Ragnheiður mun starfa áfram á stofunni en Ólöf hefur verið starfsfólki til ráðgjafar.

Ingvi Jökull hefur setið í dómnefndum erlendra og innlendra auglýsingasamkeppna um áhrifaríkar auglýsingaherferðir, meðal annars hjá Effie Finals og Euro Effie. Hann situr í ritstjórn Adveritising IMC, útbreiddustu kennslubókar um auglýsingafræði á háskólastigi í Bandaríkjunum, og hefur auk þess sinnt ráðgjafahlutverki hjá stórum og smáum fyrirtækjum.

„Það verða ekki gerðar stórvægilegar breytingar á stofunni þó eignarhaldið hafi breyst, þessi yfirfærsla hefur staðið yfir í tvö ár. Við munum áfram sinna núverandi viðskiptavinum af bestu getu og halda sömu stefnu með grunnáherslu á árangursríkar herferðir,“ segir Ingvi Jökull. „Við hjá H:N munum halda áfram að skemmta okkur og höfum bætt við okkur starfsfólki til að auka áherslu á hönnun og almannatengsl. Það er óhætt að segja að það séu spennandi tímar í auglýsingaheiminum.“