Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins segir að  ef við, Íslendingar, ættum að geta vænst árangurs við endurreisn þjóðfélagsins þyrftu áhrifaaðilar að taka höndum saman um vönduð vinnubrögð og yfirvegun í umræðu og meðferð staðreynda.

Þetta sagði Helgi í upphafsræðu sinni á Iðnþingi sem nú stendur yfir.

„Þeir þurfa einnig að sýna það í verki að þeir vilji taka þátt í að byggja samfélagið upp að nýju á grundvelli þeirra gilda sem reyndust okkur vel í gamla Íslandi. Niðurrif gengur ekki lengur, eigi árangur að nást,“ sagði Helgi.

Þá gagnrýndi Helgi sérstaklega fjölmiðla og fræðimenn fyrir umfjöllun og yfirlýsingar um það ástand sem nú hefur ríkt frá bankahruninu í haust.

„Það er kominn tími til að fjölmiðlar fari að horfa út úr myrkrinu. Það vekur furðu mína og vonbrigði hve mikinn áhuga þeir hafa sýnt neikvæðum fréttum – og helst engu öðru en neikvæðum fréttum,“ sagði Helgi.

Hann sagði að margir hverjir hefðu gengið mjög langt í að túlka fréttir og atburði á enn verri veg en ástæða hefur verið til. Þeir hafi því miður misst nauðsynlega raunveruleikatengingu og gengið fram af minni ábyrgð en vonast mátti til.

„Fréttaflutningur af atvinnulífinu er meira og minna allur neikvæður,“ sagði Helgi.

„Þegar eitthvað gerist jákvætt, vekur það takmarkaða athygli en fréttir af gjaldþrotum og hrakspám eru í stöðugum forgrunni. Ekki svo að skilja að það eigi að þegja um vondar fréttir. Öðru nær en það þarf meira jafnvægi. Nú er komið að fjölmiðlunum að staldra við og meta það hvort þeir ætla að halda áfram á sömu braut eða taka þátt í endurreisn með málefnalegri umfjöllun út frá þjóðarhag.“

Þá nefndi Helgi sérstaklega fræðimenn og sérfræðinga – ýmist raunverulega eða sjálfskipaða, eins og hann orðaði það í ræðu sinni.

Hann sagði marga þessara manna hafa komið fram af fagmennsku og yfirvegun og auðveldað fólki að skilja flókin viðfangsefni. Aðrir hafi ítrekað komið fram og viðhaft stóryrði og sýnt ábyrgðarleysi.

„Ef um er að ræða menn sem gegna virðulegum stöðum fræðimanna – sem ætlast er til að tekið sé mark á – þá er það mjög alvarlegt mál,“ sagði Helgi.

Þá sagði hann jafnframt (birt óbreytt úr ræðu Helga):

„Ég ætla að láta nægja að nefna eitt dæmi sem olli mér vonbrigðum og hneykslan þó mörg önnur dæmi komi því miður upp í hugann: Mánudaginn 13. október birtist fimm dálka frétt í Morgunblaðinu þar sem haft var orðrétt eftir Þórólfi Matthíassyni prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands að ástandið á Íslandi væri verra en ÞJÓÐARGJALDÞROT. Hann útskýrði að þjóðargjaldþrot væri ekki til sem efnahagslegt hugtak og því ekki hægt að nota slíkt orð um yfirvofandi ástand á Íslandi. Ríkissjóður gæti ekki hlaupið frá skuldbindingum sínum.

Hann lýsti hrikalegri skuldabyrði og sagði síðan.......: „Sem þjóð geta Íslendingar ekki lýst sig gjaldþrota og leyst sig undan þessu. Og að því leytinu er ástandið verra en „þjóðargjaldþrot““. Hvað gengur þessum prófessor eiginlega til? Með gífuryrðum hræðir hann fólk og gerir erfiða stöðu miklum mun dekkri en hún þó er. Er til eitthvað verra efnahagslegt ástand en gjaldþrot? Þórólfur Matthíasson prófessor við háskólann talaði um að ástandið væri verra en þjóðargjaldþrot! Við þurfum ekki á svona tali að halda við endurreisn Íslands! Við verðum að ætlast til þess að þeir sem gegna virðulegum stöðum prófessora við Háskóla Íslands geri ríkar kröfur til sjálfra sín um vönduð vinnubrögð – að þeir gæti að orðum sínum og yfirlýsingum.“