„Við vinnum ekki til baka töpuð lífskjör, fyrra atvinnustig og laskað atvinnulíf nema með því að nýta öll þau tækifæri sem völ er á í íslensku atvinnulífi.“

Þetta sagði Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins í upphafsræði sinni á Iðnþingi sem nú stendur yfir.

„Við höfum ekki lengur efni á að láta nein skynsamleg og raunhæf tækifæri fram hjá okkur fara. Við höfum ekki efni á stjórnmálaöflum eða stjórnsýslustofnunum sem tefja framvindu á sviði hagvaxtarskapandi atvinnuuppbyggingar. Við höfum ekki efni á neinum stórum stoppum. Við höfum einungis efni á kraftmikilli og markvissri uppbyggingu.“

Helgi sagðist nefna þetta sérstaklega þar sem mönnum væri oft tamt að gagnrýna stjórnmálamenn og stjórnvöld fyrir áhugaleysi og seinagang.

„En til að gæta sanngirni vil ég segja að það á ekki við um iðnaðarráðherra. Hann boðar metnaðarfulla iðnaðarstefnu og ég flyt honum þakkir Samtaka iðnaðarins fyrir góð verk og eljusemi,“ sagði Helgi.