Banka- og gjaldeyrishrunið hefur leitt af sér að stór hluti atvinnufyrirtækja í landinu býr við óviðunandi fjárhagsstöðu og stefnir í þrot verði ekki að gert. Þetta þýðir að vá steðjar að íslensku samfélagi sem fær ekki þrifist nema í landinu dafni blómleg atvinnustarfsemi við hagfelld skilyrði.

Þetta sagði Ólafur Ísleifsson, dósent í hagfræði við HR í ræði sinni á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem nú stendur yfir.

Hann sagði að sú vá lýsti sér ekki síst í alvarlegri hættu á atgervisflótta og að færri hendur þurfi að standa undir kostnaðarsömu velferðarkerfi í landinu. Með því væri velferðinni og um leið samfélagsgerðinni sjálfri ógnað.

Lækkun stýrivaxta forgangsatriði

Þá sagði Ólafur að í þeirri efnahagsáætlun sem nú vari fylgt í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sýndist veikasti hlutinn vera stefnan í gjaldeyris- og peningamálum „sem er eins og hver annar Akkilesarhæll,“ sagði Ólafur.

„Engin atvinnustarfsemi getur keppt við atvinnulíf neins staðar í heiminum á lánakjörum sem fylgja hinum ofurháu stýrivöxtum.“

Hann sagði að nágrannaþjóðir hvarvetna hefðu lækkað stýrivexti seðlabanka sem aðgerð til að halda hjólum atvinnulífs gangandi. Hér hafi verið haldið uppi háum vöxtum sem  ógna fjárhag.

„Lækkun vaxta er þess vegna forgangsverkefni og hlýtur að vera eitt af meginatriðum í viðræðum stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem nú standa yfir,“ sagði Ólafur.

„Það þarf enga 18% stýrivexti ofan á haftakrónu sem liggur í fjötrum. Eldsneyti verðbólgunnar er þrotið og framsýn vaxtastefna hlýtur að taka mið af þeirri staðreynd í stað þess að einblína á verðhækkanir af völdum gengishrunsins sem að mestu eru gengnar yfir. Um leið þarf að horfast í augu við að gjaldeyrishöftin standa atvinnulífinu alvarlega fyrir þrifum. Þessi höft þarf að afnema með  markvissum hætti. Til að greiða fyrir afnámi haftanna þarf að sprengja burt snjóhengju krónubréfa með viðræðum við eigendur þessara bréfa og annarra eigna sem kynnu að leita út úr landinu og skapa hættu á nýrri dýfu krónunnar sem síst má verða.“