Iðnþing 2008 hófst rétt í þessu á Grand Hótel undir yfirskriftinni Ísland og Evrópa: Mótum eigin framtíð. Vb.is er á staðnum og flytja fréttir frá gangi mála.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í upphafsræðu sinni að í lok Iðnþings í fyrra hefði þingið hvatt til þess að vaxtastig Seðlabankans færi hratt niður.

„Það hefur því miður ekki gengið eftir – þvert á móti hafa stýrivextir Seðlabanka hækkað stöðugt og eru komnir langt umfram það sem atvinnulífið og almenningur geta búið við. Vaxtastefna Seðlabankans er að okkar mati orðin sjálfstætt efnahagsvandamál sem flestir gagnrýna með gildum rökum en ekkert fæst ráðið við. Samtök atvinnurekenda hafa krafist að þessari stefnu verði breytt, að vinnubrögðum Seðlabanka verði breytt og að lögum um Seðlabankann verði breytt – annars er hætt við að hér geti orðið ofkólnun í efnahagslífinu með afleiðingum sem menn vilja helst ekki hugsa til enda,“ sagði Helgi í ræðu sinni.

Hann sagði að Seðlabankanum hefði mistekist að halda niður verðbólgu í landinu.

,, Bankanum hefur mistekist ætlunarverk sitt og þjóðin er föst í vítahring ofurvaxta. Það verður að brjótast út úr þeirri sjálfheldu. Eitt brýnasta verkefni efnahagsstjórnar á Íslandi er að rjúfa þennan vítahring með öllum tiltækum ráðum. Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað óskað eftir því við ríkisstjórnina að markmið Seðlabankans verði tekin til endurmats og að lögum um bankann verði breytt ef nauðsyn krefur,“ sagði Helgi.