Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra segir mikilvægt að Íslendingar nýti þær auðlindir sem í boði eru, þó með skynsamlegum hætti.

Þetta sagði Össur í ræðu sinni á Iðnþingi sem nú stendur yfir.

„Auðvitað eigum við að nýta þær gjafir sem Guð gaf okkur í vöggugjöf,“ sagði Össur og bætti því við að nauðsynlegt væri að leggja kraft í að efla iðnað í landinu.

Össur sagði að hann myndi leggja allt kapp á að fá Alþingi til að samþykkja samninga um álveri í Helguvík. Hann sagði sú stefna sín skapaði sér ekki vinsældir meðal eigin flokksmeðlima í Samfylkingunni.

Hins vegar horfðu Íslendingar fram á aukið atvinnuleysi og því væri ekkert annað í boði en að nýta þau tækifæri sem hér væru í boði.

Hann sagði að unnið yrði að því að fjármagna þau verkefni sem nú lægju fyrir, svo sem virkjanaframkvæmdir og byggingu álvera.