Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra segist hafa fulla trú á því að olíu og gas væri að finna á íslenskum landgrunni.

Þetta sagði Össur í ræðu sinni á iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem nú stendur yfir.

Össur sagði að þrátt fyrir gagnrýni á Alþingi yrði áfram unnið að því að leita eftir olíu og gasi á Drekasvæðinu. Ekki væri spurningu um hvort þar myndi eitthvað finnast heldur hvort nóg magn væri þar að finna til að hægt væri að vinna það.

Þá lagði Össur einnig áherslu á að Íslendingar þyrftu að skipta um gjaldmiðil hið fyrsta og óska eftir inngöngu í Evrópusambandið. Hann sagði að um leið og Íslendingar myndi lýsa því yfir að til stæði að ganga í Evrópusambandið myndu þeir horfa fram á bjartari tíma.