Afstaðan til stóriðju hefur miðast undanfarin ár af því að morgundagurinn sé eins og gærdagurinn, þ.e. að svo virðist sem afstaðan til stóriðju hafi einkennst af því að gert sér ráð fyrir því að ekki geti skapast hér atvinnuleysi, verðbólga og skuldasöfnun hins opinbera.

Þetta sagði Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi í ræði sinni á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem nú stendur yfir.

Hún sagði að leitun væri að þeim þjóðum sem ekki hefðu leitað aðferða til að nýta auðlindir sínar með hagkvæmum hætti. Íslendingar hafi verið langt á eftir öðrum þjóðum.

Þá sagði Rannveig það algengan að misskilning að Ísland væri besti og jafnvel eini kosturinn fyrir þau alþjóðlegu fyrirtækju sem leituðu eftir ódýrri orku. Því færi fjarri. Hún sagði að margar aðrar þjóðir hafi góða möguleika á að framleiða ódýra orku.

Rannveig vék í ræðu sinni að skrifum Indriða G. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattsstjóra og núverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu en Indriði hélt því nýlega fram að starfssemi álvera á Íslandi skipti í raun litlu máli fyrir íslenskt efnahagslíf.

Rannveig gagnrýndi þessi skrif Indriða og sagði Alcan á Íslandi (Álverið í Straumsvík) hafa greitt un 1,4 milljarða króna í tekjuskatt árið 2007 auk 230 milljóna króna í fasteignagjöld.

Þá keypti félagið vörur og þjónustu af rúmlega 800 fyrirtækjum á liðnu ári fyrir um 5,4 milljarða króna.