Íslendingar eru að gera upp við tímabil þar sem sitthvað fór úr böndunum. Mikilvægt er að það uppgjör fari fram og ég fæ ekki betur séð en þau mál hafi verið sett í viðeigandi farveg og í hendurnar á réttum yfirvöldum – og þá er ekkert að vanbúnaði að halda áfram og hefja uppbygginguna.

Þetta sagði Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins í upphafsræðu sinni á Iðnþingi sem nú stendur yfir.

„Við skulum ekki bíða eftir uppgjörinu. Það kemur. Ef við bíðum og aðhöfumst ekkert, þá verður enn erfiðara að komast á beinu brautina aftur. Við þurfum strax að hefjast handa við enduruppbyggingu atvinnulífsins og þjóðfélagsins alls,“ sagði Helgi.

Hann sagði að allt of margir vildu festa sig í fortíðarvanda án þess að líta fram á veginn og sjá fátt annað en það viðfangsefni að finna sökudólga til að refsa.

„Þeir gera þjóðinni ekkert gagn,“ sagði Helgi.

„Hefndarþorsti mun ekki leiða til farsældar. Þeir sem kunna að hafa gerst brotlegir munu svara fyrir það á réttum stöðum. Stjórnvöld hafa komið upp farvegi og embættum sem munu sinna þeim viðfangsefnum. „

Hann sagði verkefnin vera að horfa fram á veginn og byggja upp en tók fram að til þess að unnt sé að fóta sig þarf að hafa réttar upplýsingar.

Gagnrýnir ýkjur og rangfærslur um skuldastöðu landsins

„Það gengur t.d. ekki að menn geti haldið að þjóðinni röngum upplýsingum um skuldastöðu ríkissjóðs að því er virðist gagngert til að brjóta fólk niður og draga úr baráttuþreki,“ sagði Helgi.

„Ég nefni stöðugt tal stjórnmálamanna og fjölmiðla um 2.000 til 3.000 milljarða skuldir ríkissjóðs sem haldið hefur verið ítrekað fram í umræðunni. Fólk hefur trúað þessu og hreinlega óttast að ríkissjóður væri gjaldþrota og að þjóðin kæmist aldrei upp úr skuldafeninu. Það er sem betur fer rangt og það er einnig þjóðhættulegt og beinlínis ljótt að draga kjarkinn úr landsmönnum með þessum hætti. Það má alveg spyrja hvaða hagsmunum slíkur málflutningur þjónar.“