Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins sagði að þau forgangsmál sem samtökin teldu að þyrftu að fá skjóta úrlausn á Íslandi, væru ekki frumleg.

„Við höfum í allan vetur talað um sömu málin, sömu forgangsmálin og við í atvinnulífsforystunni munum halda áfram að tala um þau þar til viðunandi lausnir fást,“ sagði Helgi í upphafsræðu sinni á Iðnþingi sem nú stendur yfir.

Helgi sagði að skjót og mikil lækkun vaxta væri óhjákvæmileg, 18% stýrivextir Seðlabankans væru að kæfa atvinnulífið og heimilin í landinu. Þá sagði hann verðbólguna þurfa að komast í svipað horf og í nágrannalöndunum.

Þá vék Helgi einnig að útrásinni.

„Þó ýmsir hafi ofreist sig í útrásartilburðum á Íslandi hin síðari ár, má útrás ekki verða skammaryrði, hvað þá útflutningur eða samskipti atvinnulífsins við útlönd. Það má ekki gleymast að fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur staðið fyrir farsælum fjárfestingum og starfsemi erlendis, bæði á undanförnum árum og einnig á síðustu áratugum,“ sagði Helgi.

Þá sagði Helgi að á næstu mánuðum og misserum myndum við ekki komast hjá því að finna gjaldmiðlamálum Íslendinga nothæfan farveg. Tilraunin um íslensku krónuna sé fullreynd og hún hafi mistekist.

„Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við þann stein. Við verðum að greiða úr gjaldmiðlavanda þjóðarinnar af fullri ábyrgð,“ sagði Helgi.

„Það gerum við best með upptöku evru eftir inngöngu í Evrópusambandið. Um það mál hafa Samtök iðnaðarins sagt margt á undanförnum árum. Ég get orðað það á einfaldan hátt, líkt og frægur maður sagði forðum: Auk þess legg ég til að Íslendingar hefji strax aðildarviðræður við ESB þar sem heildarhagsmuna þjóðarinnar og allra atvinnugreina verði gætt.“

Þá sagði Helgi að lokum að það mætti aldrei gleymast að undirstaða þess velferðarþjóðfélags sem við gerum kröfu um að halda uppi hér á landi er verðmætasköpun í atvinnulífinu.