*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 23. apríl 2020 19:53

Innanlandsferðasumarið mikla

Aukin sala á ferðatækjum undanfarnar viku bendir til þess að landsmenn muni ferðast innanlands í sumar sem aldrei fyrr.

Sveinn Ólafur Melsted
Framkvæmdastjóri Víkurverks reiknar með að allir vagnar sem fyrirtækið er með til sölu verði uppseldir í júní.
Haraldur Guðjónsson

Vegna kórónuveirufaraldursins hafa fjölmargir Íslendingar neyðst til að hætta við eða fresta fyrirhuguðum utanlandsferðum sínum í sumar, auk þess sem reikna má með að koma erlendra ferðamanna hingað til lands muni nær alfarið leggjast af. Sökum þess má gera fastlega ráð fyrir því að sumarið 2020 verði sumarið þar sem landsmenn ferðast innanlands sem aldrei fyrr. Að minnsta kosti bendir aukin sala undanfarinna vikna hjá tveimur af stærri fyrirtækjunum sem selja ferðatæki, líkt og hjólhýsi, fellihýsi, húsbíla og tjaldvagna, svo sannarlega til þess.

„Það er búið að vera ágætlega mikið að gera hjá okkur í vetur en núna eftir páskana hefur átt sér stað hálfgerð sprenging og verið alveg brjálað að gera," segir Hafdís Elín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Útilegumannsins.

Arnar Barðdal, framkvæmdastjóri Víkurverks, tekur í sama streng. „Eftir að veiran skall á varð minna að gera hjá okkur fyrstu dagana en svo lifnaði fljótlega yfir þessu aftur og síðustu tvær vikurnar hefur verið mjög mikið að gera."

Að sögn Hafdísar hefur selst vel af nánast öllum vörum, allt frá hefðbundnum tjöldum yfir í hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. „Fjöldi fólks er að leitast eftir ferðavörum fyrir sumarið og ég reikna því með að flest tjaldsvæði landsins verði vel sótt af Íslendingum í sumar. Það er yfirleitt gott veður einhvers staðar á landinu og því kæmi mér lítið á óvart ef landsmenn munu í auknum mæli elta sólina hér innanlands, í stað þess að elta hana til útlanda. Maður sér það á fólkinu sem hefur verið að koma til okkar að það er orðið spennt fyrir sumrinu og að geta farið að ferðast innanlands í stað þess að ferðast innanhúss."

Allir vagnar verði uppseldir í júní

Arnar segir að sala Víkurverks hingað til á þessu ári sé 20% yfir áætlun.

„Hjólhýsin eru langvinsælust og hafa sumar hjólhýsategundir sem við erum með til sölu þegar selst upp. Tjaldvagnar hafa sömuleiðis verið að sækja í sig veðrið og við höfum einnig selt nokkra húsbíla. Þá hefur sala á fortjöldum á ferðavagna aukist verulega miðað við sama tíma í fyrra og fólk virðist vilja vera tímanlega í því að verða sér úti um fortjald fyrir sumarið," segir hann og bætir við að margt bendi til þess að meira og minna allir vagnar sem Víkurverk er með til sölu verið uppseldir í júní. „Það er allt að verða uppselt hjá framleiðendum úti, en við erum að reyna að „væla" út nokkra vagna frá þeim í viðbót."

Hann bendir á að kjörið sé fyrir landsmenn að nýta sumarið sem nú er nýgengið í garð í að ferðast innanlands.

„Það virðist vera sem engir ferðamenn muni koma til landsins í sumar og því verður meira pláss á ferðamannastöðunum og minni umferð á vegunum. Auk þess er mjög flott ferðaþjónusta til staðar um allt land sem býður fólki upp á ýmsa skemmtilega afþreyingarmöguleika. Svo er búið að spá því að það verði mjög gott veður í allt sumar," segir Arnar og hlær.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Tvær af stærstu matvöruverslunarkeðjum landsins hafa enn ekki sett netverslun í loftið. Önnur keðjan stefnir á að opna slíka verslun en hin ekki.
  • Ítarleg greining á þróun gengis hlutabréfa félaganna sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallar Nasdaq á Íslandi eftir að COVID-19 skall á.
  • Rætt er við Ólaf Sigurðsson, framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs, en sjóðurinn býður upp á mun lægri breytilega óverðtryggða vexti en aðrir sjóðir og lánastofnanir.
  • Aðalhagfræðingar Arion banka og Kviku banka tjá skoðanir sínar á nýjum aðgerðapakka stjórnvalda.
  • Önnur mánaðarmótin í röð er bráðaaðgerða þörf til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþroti í ferðaþjónustu.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem skrifar um áætlanir stjórnvalda til að styðja við einkarekna fjölmiðla.
  • Óðinn skrifar um ástandið í þjóðfélaginu og aðgerðir stjórnvalda.