Nýtt félag, Flugtaxi ehf. hefur keypt innanlandsdeild Íslandsflugs, en eigendur Flugtaxa eru félögin Flugtak ehf. og Hydra ehf. Áætlað er að Flugtaxi taki formlega við flugrekstrinum 1. október n.k. og mun þá Dornier vélin TF-ELF verða afskráð hjá Íslandsflugi, en skráð á hið nýja félag. Íslandsflug mun áfram sinna viðhaldi og mönnun vélarinnar fyrstu mánuðina og skýli Íslandsflugs á Reykjavíkurflugvelli hefur verið leigt Flugtaxa ehf. Íslandsflug hefur ennfremur samið við FLugtaxa um að taka að sér, sem undirverktaki, sjúkraflug á Vestfjörðum í vetur.

Á heimasíðu Íslandsflugs kemur fram að félagið hóf innanlandsflug í ársbyrjun 1991 með Twin Otter og Piper Chieftain, en fyrsta Dornier vélin kom vorið 1992. Ákveðnu tímabili er því að ljúka hjá Íslandsflugi, sem nú hyggst eingöngu sinna leigu- og fraktflugi erlendis.