"Önnur eins vanvirðing við þá miklu vinnu sem aðilar í ferðaþjónustu inna af hendi hefur vart heyrst," sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslans og formaður SAF,um málflutning yfirvalda í tengslum við hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu. Árni talaði við aðila atvinnulífs á fundi SA sem nú stendur yfir og fjallar um skattlagningu í íslensku atvinnulífi.

Árni ræddi sérstaklega skattlagningu flugs innanlands. "Álögur á flug innanlands hafa tvöfaldast frá árinu 2009 og skila um fjögur hundruð milljónum króna í skattgreiðslur í ár," sagði Árni. Hann benti á að samhliða hækkunum hefði farþegum fækkað um 5% og sagðist ekki búast við öðru en sambærilegri þróun samhliða áframhaldandi áformum um skattahækkanir.

"Með þessu áframhaldi verður hlutverk innanlandsflugs í samgöngum hverfandi innan tíðar," sagði Árni.