Flugfélagið Flybe sem flýgur að mestu innan Bretlands og er eitt stærsta sjálfstæða svæðisbundna flugfélagið í Evrópu með um 8 milljón farþega á ári er komið í fjárhagsvanda ári eftir að því var bjargað af hópi fjárfesta.

Íhuga bresk stjórnvöld nú að aðstoða félagið eftir beiðni þess þar um, og hafa ráðherrar samgöngumála, viðskipta, orku og iðnaðar ásamt fjármálaráðherra hafið viðræður um mögulegar aðgerðir til að viðhalda samgöngum milli héraða landsins.

Óskar félagið sérstaklega eftir að losna við farþegaskatt, en undanþága frá honum myndi brjóta í bága við bæði gildandi skattalöggjöf Bretlands og löggjöf ESB, sem Bretland ætti að geta losnað undan við útgöngu í lok mánaðarins, gegn ríkisaðstoð við einkaaðila.

Sú hugmynd sem stjórnvöld skoða helst nú er að lækka farþegaskattinn almennt séð, sem gæti komið félaginu til góða í framtíðinni, en myndi ekki losa það undan núverandi skattskuldbindingum.

Núþegar niðurgreiðir ríkið nokkrar flugleiðir til mikilvægra svæða sem ekki eru með nægilegar samgöngur, til að mynda til Cornwall héraðs. Skuggaráðherra Verkamannaflokksins, sem eru í minnihluta, segir hins vegar að ekki sé rétta leiðin til að hjálpa fyrirtæki að lækka skatta á alla greinina að því er FT greinir frá.

Félagið á nú í viðræðum við stjórnvöld, en fall þess gæti þýtt að 2.400 störf myndu tapast, sem og mikilvægar samgöngur milli svæða sem oft eru ekki með góðar annars konar tengingar.

Flybe flugfélagið hefur starfað frá árinu 1979, undir mörgum nöfnum, og flogið með um 8 milljón farþega á ári milli 71 flugvallar í bæði Bretlandi og Evrópu. Á síðasta ári var félaginu bjargað frá gjaldþrotum af hópi fjárfesta sem í voru Virgin Atlantic, Stobart Air og Cyrus Capital.