Innanríkisráðuneytið svarar í dag eða á mánudaginn fyrirspurn Embættis ríkissaksóknara um leka á trúnaðarupplýsingum varðandi hælisleitanda. Þetta sagði Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hún fullyrti að starfsmenn ráðuneytisins hefðu ekki hugmynd um hvaðan lekinn kæmi. „Það verður enginn fegnari en við að komast til botns í þessu máli. Við höfum gert allt það sem í okkar valdi stendur til þess,“ sagði Þórey.

Ríkissaksóknari, sem æðsti handhafi ákæruvalds, óskaði fyrir síðustu helgi eftir upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu í tilefni af kæru lögmanns Evelyn Glory Joseph, á hendur ráðuneytinu vegna lekans. Meðal fylgiskjala með kærunni var bréf innanríkisráðuneytisins til lögmannsins þar sem fram kemur að ekkert bendi til að gögn sem innihaldi upplýsingar um skjólstæðing lögmannsins hafi verið afhent óviðkomandi frá embættismönnum eða öðrum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins.