Magnea Einarsdóttir lærði fatahönnun í London og hannar undir eigin nafni. Hún selur hönnun sína meðal annars í JÖR á Laugavegi. Magnea segist enn vera með merki sem hún sé að koma á fót og því sé Reykjavík Fashion Festival tækifæri til að kynna það á faglegum vettvangi, bæði fyrir íslenskum markaði og erlendri pressu.

Hvernig myndirðu lýsa þeirri fatalínu sem þið kynnið á RFF?

Ég vil eiginlega segja sem minnst um hana þar sem ég vil að hún komi á óvart. Ég er aðallega að vinna með prjón en aðeins með prent líka sem er nýtt fyrir mig. Ég hef fengið frábæra aðstoð hjá prentfyrirtækinu Batik og útkoman á efnunum þaðan er mjög spennandi. Varðandi innblástur þá er ég búin að vera að skoða byggingarsvæði og vinnufatnað en sú hugmynd kviknaði þegar ég heimsótti Berlín í haust.

Hversu miklu máli skiptir það fyrir íslenska hönnun að hafa hátíð eins og RFF og þá hvers vegna?

Með hátíð eins og RFF myndast glæsilegur rammi utan um það sem er að gerast í íslenskri fatahönnun. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir íslenska fatahönnun í heild að haldin sé svona flott hátíð, bæði til að efla iðnaðinn og til að vekja athygli á senunni hér á Íslandi.

Að lokum, geturðu sagt mér frá merkinu og áherslum?

Ég legg aðaláherslu á áhugaverðan textíl en ég er sérhæfð í prjóni og reyni að gera nýja hluti með það til að sýna fjölbreytileikann sem það býður upp á. Ég vinn mikið með andstæður og hef verið að nota óhefðbundin efni og samsetningar en sniðin hef ég einföld svo að textíllinn fái að njóta sín.

Reykjavík Fashion Festival (RFF) verður haldið í Hörpu 27. mars til 30. mars. Þar munu átta ólík fyrirtæki sýna hönnun sína sem mun eflaust verða mikil veisla fyrir augað. Fjallað er um RFF í blaðinu Tísku, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .