Gerð var tilraun til innbrots í tölvukerfi Reiknistofu bankanna (RB) og var brugðist við í samræmi við viðbragðsáætlun samkvæmt tilkynningu stofunnar. Brotist var inn í ysta netlag en engar vísbendingar eru um að komist hafi verið inn í kerfi RB og viðskiptavina.

RB vinnur að úrlausn málsins með helstu sérfræðingum í netöryggismálum og samstarfsaðilum fyrirtækisins. Við úrlausn varð þjónusturof kl. 13:07 sem hafði þær afleiðingar að truflanir eru í starfsemi netbanka og debetkorta. Áfram er unnið að úrlausn málsins en þjónusturofið hefur verið leyst og kerfin aftur orðin virk.

Reiknistofa bankanna er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar og rekur hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins.