Samtök verslunar og þjónustu sendu bæði umboðsmanni Alþingis og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA,  kvörtun á þriðjudag vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Samtökin gagnrýna þau lög sem eru í gildi um innflutningsbann á fersku kjöti, í raun gangi það gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Til viðbótar telja samtökin að eftirlitskerfið hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit. Slíkt sé ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins.

„Ekkert hefur komið fram í máli þessu að íslenskum stjórnvöldum verði ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti. Þess ber að geta að samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar. Þá skal áhættumat byggjast á fyrirliggjandi vísindalegum heimildum og skal framkvæmt á sjálfstæðan, hlutlausan og gagnsæjan hátt,“ segir í bréfi samtakanna.