Norðmenn búa sig nú undir að algjörlega lokist fyrir sölu á ferskum fiski og fiskafurðum til Rússlands 1. janúar. Ástæðan er sú að rússnesk heilbrigðisyfirvöld sögðust í byrjun desember hafa fundið mikla blý- og kadmíummengun í norskum eldislaxi sem sé langt yfir hættumörkum. Norðmenn fullyrða aftur á móti að mengunin sé langt innan þeirra marka sem Evrópusambandið setur. Á miðvikudag sló þó enn í bakseglin fyrir Norðmenn í þessu máli. Þá tilkynntu yfirvöld í Singapúr að allur lax sem innfluttur væri frá Noregi yrði rannsakaður sérstaklega.

Í Noregi gengur sá orðrómur að afstaða Rússa í málinu sé af pólitískum toga og tengist deilum Rússa og Norðmanna um fiskveiðar í Barentshafi.

Magnor Nerheim hjá norsku fiskveiðistofnuninni segir í samtali við NTB að Norðmenn ekki hafa neina ástæðu til að efast um að Rússar geri alvöru úr hótun sinni um að stöðva allan fiskinnflutning frá Noregi. Norðmenn hyggjast svara erindi Rússa fyrir áramót.

Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn því útflutningur á laxi til Rússlands nemur um 600 milljónum norskra króna á ári, eða um 5,6 milljörðum íslenskra króna. Rússar kaupa 500 tonn af laxi í hverri viku. Það er um 10% af öllum útflutningi Norðmanna á laxi. Að sögn NTB nemur heildar fiskútflutningur Norðmanna til Rússlands um 3 milljörðum norskra króna á ári, eða um 28 milljörðum íslenskra króna.

Magnor Nerheim segist samt vonast til að stöðvun Rússa á innflutningi á norskum fiski vari ekki lengi. Hann segir að Norðmenn hafi aðeins fengið lauslegar upplýsingar um prufur sem teknar hafi verið en engar upplýsingar liggi fyrir með hvaða hætti var staðið að þeirri sýnatöku. Vonast hann til að hægt verði að funda með Rússum í Noregi strax eftir áramót. Líkur eru þó á að slík fundahöld verði ekki fyrr en um miðjan janúar þar sem mikil hátíðahöld eru í Rússlandi og margir frídagar í kringum áramótin.

Yfirvöld í Singapúr hafa áður eingöngu tekið sýni vegna rannsókna á enn skaðlegri málmsamböndum eins og væntanlega kvikasilfri og öðrum eiturefnum. Norsk yfirvöld sem fjalla um sjávarafurðir halda fast við að þau búi yfir staðfestum gögnum um gæði í eldislaxi í Noregi. Eigi að síður hefur eldisfyrirtækið Brandasund Fiskeforedling í Bömlo varað við því að komið gæti til uppsagna 100 starfsmanna fyrirtækisins vegna innflutningsbanns Rússa. -- "Við þorum ekki að hefja nýtt ár nema gefa út slíka aðvörun segir John Gustav Lothe, forstjóri fyrirtækisins í samtali við Haugesunds Avis.