Íslensk löggjöf um innflutning á vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum er ekki í samræmi við EES-samninginn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eftirlitstofnun EFTA (ESA).

Þessar innflutningstakmarkanir geta valdið innflutningsaðilum erfiðleikum við að koma vörum sínum á markað að mati ESA.

Í íslenskri löggjöf eru innflutningstakmarkanir á hráum eggjum og vörum úr þeim sem og ógerilsneyddri mjólk og mjólkurvörum. Innflytjendur verða að sækja sérstaklega um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. ESA telur að þessar kröfur stangist á við tilskipun um eftirlit með dýraheilbrigði.

Í fréttatilkynningu frá ESA kemur einnig fram að: „Vörur úr eggjum og mjólk sem viðskipti eru með innan Evrópska efnahagsvæðisins lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkinu. Eftirlit í viðtökuríki er hins vegar takmarkað við stikkprufur. Yfirgripsmikið regluverk ESB, sem er hluti af EES-samningnum, er sérstaklega hannað til að  draga úr áhættu og minnka líkur á að sjúkdómsvaldar berist milli landa. Víðtækt kerfi varúðarráðstafana er við lýði ef hætta skapast á útbreiðslu sjúkdómsfaraldurs í EES-ríkjum.“

Hægt er að lesa nánar um málið á vef ESA.