Gríðarlegur samdráttur hefur orðið á innflutningi dagblaðapappírs á undanförnum tveim árum eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands jókst innflutningur dagblaðapappírs hröðum skrefum frá 2002, úr 7.890 tonnum í 18.097 tonn árið 2006. Árið 2007 voru síðan flutt inn 14.006 tonn og hrapaði innflutningurinn niður í 8.109 tonn á árinu 2008. Lokatölur liggja ekki fyrir vegna ársins 2009, en á fyrstu ellefu mánuðum ársins voru flutt inn 6.695 tonn af dagblaðapappír. Í desember 2008 voru einungis flutt inn 24 tonn, en 1.151 tonn í sama mánuði 2007. Það horfir í minnsta innflutning á dagblaðapappír í meira en áratug.