Vöruinnflutningur til landsins hefur aukist jafnt og þétt undanfarin misseri og útlit er fyrir áframhaldandi aukningu á þessu ári. Aukinn innflutningur helst í hendur við aukna einkaneyslu en ekki síður byggingaframkvæmdir og aukinn vöxt ferðaþjónustunnar. Framkvæmdir við kísilmálmverksmiðjur, bygging hótela og íbúða kallar auðvitaða á innflutning byggingarefna. Ferðamenn þurfa síðan að borða og drekka og það þegar þeim fjölgar um tugi prósenta á hverju ári þarf að flytja inn meiri dagvöru.

Ottó Sigurðsson, forstöðumaður hjá Samskipum, segir að fyrirtækið finni svo sannarlega fyrir auknum innflutningi.

„Við erum búin að taka ákvörðun um að bæta fimmta skipinu í flotann hjá okkur tímabundið," segir Ottó. „Þetta er samskonar skip og minni skipin okkar, Skaftafell og Hoffell, og mun þetta auka flutningsgetu okkar um 17%. Þetta er fyrst og síðast gert til að mæta auknum innflutningi.

Bílaleigubílar eru stór hluti af flutningunum núna og verða það fram á vor. Það hefur verið árleg aukning í þeim geira. Þá hefur innflutningur á byggingarvörum verið að aukast sem og ýmissi dagvöru, sem tengist þá beint auknum ferðamannastraumi til landsins. Uppsveiflan í ferðaþjónustunni þýðir auðvitað að það þarf að flytja meiri matvæli og drykkjarföng til landsins."

Í afkomutilkynningu Eimskips frá 25. febrúar kemur fram að flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2% milli áranna 2014 og 2015. Á fjórða ársfjórðungi 2015 nam aukningin 10,1% samanborið við sama ársfjórðung 2014.

„Innflutningur hefur verið að glæðast og er að ná þeim hæðum sem hann var í fyrir hrun," segir Ólafur William Hand, forstöðumaður kynningar- og markaðsdeildar Eimskips. „Við sjáum þetta í raun í öllum geirum. Það virðist vera kominn skriður á samfélagið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning .