Innflutningur fólksbifreiða jókst mikið á milli desember og janúar og er nú í sögulegu hámarki, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Einnig er nokkur aukning í hrá- og rekstrarvörum þrátt fyrir að innflutningur á áloxíði dragist saman.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru fluttar inn vörur fyrir 34,2 milljarða króna í janúar sem er lítilleg aukning frá síðasta mánuði en frá janúar í fyrra er raunaukningin um 20%.

Meira af fjárfestingarvörum

Innflutningur fjárfestingarvara og hluta til þeirra eykst á milli mánaða og hefur ekki verið meiri síðan í júlí á sl. ári. Innflutningur rafskauta til álframleiðslu er áfram nokkuð mikill en eykst þó ekki á milli mánaða. Innflutningur á mat, drykkjarvörum og öðrum neysluvörum dregst saman á milli mánaða en er engu að síður mikill samanborið við janúar á sl. ári.