Á fyrstu 8 mánuðum ársins hefur innflutningur til Íslands frá Kanada farið vaxandi og var verðmæti hans á þessu tímabili rétt rúmir tveir milljarðar króna. Haldi þessi aukning áfram eykst innflutningur frá Kanada til Íslands um 60% milli ára. Milliríkjaviðskipti Íslands og Kanda í fyrra námu ríflega þremur milljörðum íslenskra króna. Útflutningur Íslands til Kanada nam árið 2003 1,4 milljörðum króna og er þar einkum um sjávarafurðir að ræða. Innflutningur frá Kanada til Íslands í fyrra nam hins vegar 1,83 milljörðum króna, og er þar einkum um að ræða farartæki, húsgögn, pappír og lyf.

Stærsta fjárfesting Kanadamanna á Íslandi um þessar mundir er í álveri Alcan, en kanadíska fyrirtækið Bectel mun reisa álver Alcoa á Reyðarfirði og því viðbúið að fjárfesting á þessu sviði muni aukast. Richard Tétu er sendiherra Kanada á Íslandi og hann segir í viðtali við Viðskiptablaðið að fjölmörg tækifæri til að auka fjárfestingar þjóðanna á hinum ýmsu sviðum, það sé raunar mikilvægt að auka gagnkvæmar fjárfestingar þjóðanna. "Ég veit að Íslendingar eru duglegir við að fjárfesta," segir sendiherrann.

Á morgun föstudag, hefur verið blásið til ráðstefnu Á Radisson SAS Hótel Sögu, þar sem kynntir verða í fyrsta sinn á Íslandi möguleikar til að fjárfesta í Kanada. Embættismenn Kanada á Norðurlöndum öllum kynna nú fyrir fjárfestum leiðir til að fjárfesta í Kanada, en til grundvallar leggja þeir niðurstöður nýrrar skýrslu KPMG um samkeppnishæfni þjóða. Samkvæmt skýrslunni trónir Kanada á toppi lista yfir samkeppnishæfni þjóða þegar litið er á rekstrarkostnað fyrirtækja í viðkomandi ríkjum.