Vöruinnflutningur í maí nam 18,5 milljörðum króna án skipa og flugvéla og jókst um 4% miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum byggðum á innheimtu virðisaukaskatts. Í vefriti fjármálaráðuneytisins kemur fram að meginskýringin á auknum innflutningi er sem fyrr aukinn innflutningur fjárfestingarvara og flutningatækja. Meðaltal innflutnings síðustu þriggja mánaða er um 20 milljarðar króna að raungildi sem er um 17% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Það verður að teljast líklegt að vöruskiptajöfnuður maímánaðar verði neikvæður. Vöruskiptajöfnuður var neikvæður í maímánuði í fyrra um 1,7 milljarða króna. Innflutningur nú virðist nokkru meiri að raungildi en í maí í fyrra og ef útflutningur verður svipaður og í fyrra stefnir í þó nokkurn halla. Meðalgengi krónunnar í maí miðað við gengisskráningarvog hefur þó veikst um tæp 4% frá maí í fyrra sem gæti aukið verðmæti útflutnings.

Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu fjóra mánuði ársins nam tæpum 71 milljarði króna en var á sama tímabili í fyrra um 59 milljarðar króna. Að magni jókst innflutningurinn um tæp 18%. Ef bráðabirgðatölum um innflutning í maímánuði er bætt við innflutning fyrstu fjóra mánuði ársins og innflutningur janúar ? maí borinn saman við sama tímabil í fyrra eykst hann um tæplega fimmtung að raungildi. Innflutningur virðist aukast í öllum vöruflokkum en meginskýring meiri innflutnings er aukinn innflutningur fjárfestingarvara sem vex um þriðjung frá fyrra ári. Einnig er veruleg aukning í innflutningi flutningatækja, þannig hefur innflutningur flutningatækja til atvinnurekstrar tvöfaldast milli áranna og innflutningur fólksbifreiða vex enn, er um 30% meiri.