Ráðherra neytendamála hefur ekkert um innflutning á landbúnaðarafurðum að gera heldur er landbúnaðarráðherra sá sem fer með vald yfir málaflokknum. Forseti ASÍ segir hins vegar að innflutningur á landbúnaðarafurðum sé klárt neytendamál. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, og þar með ráðherra neytendamála, tjáir sig ekki um innflutning á landbúnaðarafurðum og Fréttablaðið hefur eftir aðstoðarmanni hennar að málaflokkurinn sé alfarið á hendi landbúnaðarráðherra. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að í gegnum tíðina hafi landbúnaðarráðherra litið á það sem sitt helsta hlutverk að vernda íslenska bændur, fremur en neytendur. Því telur Jóhannes að Alþingi ætti að fjalla um hvort æskilegt sé að landbúnaðarráðherra hafi einn með innflutning á landbúnaðarvörum að gera.

Undir þetta tekur Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, sem segir í samtali við Fréttablaðið að Alþingi hafi ákveðið að leggja þau lagaákvæði til hliðar sem snerta innflutning á landbúnaðarvörum og áttu að vernda hagsmuni neytenda.