Innflutningur jókst mikið á síðasta ári frá árinu á undan í krafti sterkrar krónu og stigvaxandi þenslu í hagkerfinu og nam innflutningur í fyrra um 285 milljörðum króna og er tæplega 19% því í fyrra, að kemur fram hjá greiningardeild Íslandsbanka.

Segja þeir þó magnaukningu innflutnings mun meiri, eða allt að þriðjungur milli ára, þar sem gengishækkun krónu hefur gert innflutning ódýrari.

Innflutningur fjárfestingarvara jókst um tæplega 27% í krónum talið milli ára og nam alls 67 mö.kr. Innflutningur eldsneytis og olía jókst um tæplega 24% milli ára, fyrst og fremst vegna verðhækkana á heimsmarkaði. Innflutningur bifreiða nam nálega 26 mö.kr. og jókst um rúmlega 50% milli ára. Innflutningsverðmæti mat- og drykkjarvara dróst hins vegar saman um 4% milli ára vegna hagstæðara gengis.

Vöxtur í innflutning felur í sér tekjuaukningu hjá íslenska ríkinu og bendir greiningardeildin á að í nýbirtu greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu ellefu mánuði síðasta árs kemur fram að aukning vörugjalda af ökutækjum nemur 68% frá sama tímabili 2004.

Innheimtur virðisaukaskattur jókst um rúm 21% milli ára sem samsvarar rúmlega 16% raunaukningu. Mikil umsvif á húsnæðismarkaði birtast einnig í innheimtu eignarskatta sem jókst um tæplega 32% milli ára, en þar er fyrst og fremst um stimpilgjöld að ræða.

Innheimtir tekjuskattar jukust enn fremur um tæplega 25% milli ára og tryggingagjöld um rúm 16%. Í heild jukust skatttekjur ríkissjóðs á tímabilinu um rúm 21% frá fyrra ári en aukning greiðslna nam tæplega 9%.