Innflutningur Íslendinga á kaffi jókst um 60 tonn á fyrstu 10 mánuðum 2014, borið saman við árið 2013. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Um er að ræða 3% aukningu á milli ára en 2.041 tonn var flutt inn á fyrstu tíu mánuðum 2014 borið saman við 1.982 tonn á sama tímabili fyrra árs.

„Á heildina litið er innflutningurinn svipaður á milli ára,“ segir Sigmundur Dýrfjörð, annar eigenda Te & kaffi. Hann segir þó merkja aukinn áhuga íslendinga á innlendum kaffivörum. „Virðing fyrir íslenskri framleiðslu er ögn meiri nú en fyrir hrun,“ segir hann. Um er að ræða innflutning sem nemur 7,5 kílóum af kaffi á hvern Íslending á ári, en meðalneysla í heiminum er um 1,3 kíló á mann.