Innflutt nautakjöt á síðasta ári var einungis tæplega fimmtungur af magninu sem flutt var inn á árinu 2006. Ef miðað er við árið 2008 er samdrátturinn um 70%. Alls voru flutt til landsins 100,5 tonn af nautgripakjöti á síðasta ári. Tonnin voru 549,1 árið 2006 og 331,7 árið 2008. Samtök ferðaþjónustu sendu frá sér tilkynningu fyrr í vikunni og sögðu mikinn skort á gæða nautakjöti, sem veitingahús hafa raunar mátt búa við í áraraðir. Ástandið hafi þó sjaldan verið jafnslæmt og nú. Samtökin hafi beðið eftir fundi með landbúnaðarráðherra í nokkrar vikur. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið benti á í tilkynningu sem send var í kjölfarið að opið er fyrir innflutning á nautakjöti á lækkuðum tollum. Heimild fyrir þeim innflutningi er til 30. september nk.