Innflutningur á brynvörðum peningaskápum, -kössum og geymsluhólfum hefur aukist um 121% milli ára, sé fyrri helmingur þessa árs borinn saman við sama helming í fyrra. Þannig voru peningaskápar að andvirði tæpra 13 milljóna króna fluttir inn á fyrri helmingi ársins, en einungis fyrir 5,9 milljónir króna í fyrra. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Hagstofunni.

Þetta er í takt við aukinn innflutning á gullstöngum, að minnsta kosti hvað þyngd varðar. Innflutningurinn jókst um 60% á sama tímabili, úr 10 kílóum í 16 kíló.