Ríflega sex tonn smokka voru flutt inn til landsins árið 2020, sem er aukning um 29,4% frá fyrra ári þegar innflutningur nam um 4,6 tonnum, að því er fram kemur í gögnum Hagstofunnar. Hafi eftirspurn landans eftir gúmmíverjum verið í takt við innflutt magn má ætla að faraldurinn hafi síst dregið úr kynvirkni landans.

Nettóþyngd hefðbundinnar Durex verju er um 16,7 grömm og má því áætla að fjöldi innfluttra smokka hafi verið um 360 þúsund á síðasta ári. Sé magninu dreift á meðalfjölda karla á aldrinum 16 til 67 ára yfir árið gera það um 2,8 verjur á mann, samanborið við 2,2 verjur að meðaltali ári fyrr. Að teknu tilliti til mannfjöldaþróunar nemur aukið innflutningsmagn því um 27,5%.

Innflutningsmagn í fyrra fylgdi nokkurn veginn sömu árstíðasveiflum og ári fyrr. Innflutningur jókst þó milli ára flesta mánuði, það er að mars-, maí-, október- og desembermánuðum undanskildum.

Langstærstur hluti innfluttra verja kemur frá Taílandi, eða ríflega fimm af þeim sex tonnum sem flutt voru inn á síðasta ári. Þá voru 341 kíló verja flutt inn frá Kína og 125 kíló frá Póllandi.

Engar vísbendingar um offramboð

Innflutningur gúmmíverja hefur farið heldur rólega af stað í ár samanborið við 2020, en fyrstu tvo mánuði ársins nam innflutt magn tæpum 870 kílóum, samanborið við 1,1 tonn í fyrra. Það er engu að síður mun meira en fyrstu tvo mánuði ársins 2019 þegar innflutt magn nam aðeins 457 kílóum.

Enn sem komið er eru því engin teikn á lofti um verulegt offramboð verja hér á landi þrátt fyrir innflutningsaukninguna í fyrra. Er það í takt við fregnir af tugprósenta söluaukningu Durex smokka víða um heim.

Landsmenn hafa ef til vill gert gott úr innanhúsferðalögum sínum í fyrra og þá ekki síður hugað að persónulegum smitvörnum innanhúss en annars staðar.