Þegar framleiðsluslakinn hverfur úr hagkerfinu í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta er hætta á að launaþrýstingur skapist á vinnumarkaði. Til viðbótar við launaskrið á vinnumarkaði er mikilvægt að kjarasamningar þróist með þeim hætti að launahækkanir verði hóflegar. Að öðrum kosti er hætta á að Seðlabankinn neyðist að grípa til aðhaldsaðgerða til að vega á móti þeirri þróun í lok þessa árs. Á sama hátt minnka líkur á gerð langtímakjarasamninga í byrjun næsta árs líkt og stefnt hefur verið að.

Þetta er mat greiningardeildar Arion banka á stöðunni nú. Í Markaðspunktum deildarinnar eru skoðuðu tengsl atvinnuþátttöku og stöðunnar á vinnumarkaði ásamt möguleikanum á launaskriði.

Í Markaðspunktunum stendur:

„Árið 2013 var fyrsta árið síðan 2008 sem fjöldi aðfluttra var umfram brottflutta og var fjöldinn um 1600 manns og á sama tíma fór skráð atvinnuleysi undir jafnvægisatvinnuleysi sem metið er skv. ítrunaraðferð í sérriti Seðlabankans. Það er því ljóst að staðan á vinnumarkaði ræður miklu um flutning vinnuafls til og frá landinu og má leiða líkur að því að innflutningur vinnuafls geti haft jákvæð áhrif og dregið úr líkum á of miklu launaskriði þegar atvinnuleysi fer lækkandi.“