Nýleg rannsókn bendir til þess að því hærra hlutfall innflutnings sem verðlagður er í erlendri mynt, þeim mun meiri áhrif hafa gengisbreytingar á verðlag í tilteknu hagkerfi. Þetta kemur m.a. fram í nýlegum Markaðspunktum frá greiningardeild Arionbanka.

Áhrifin er fjölbreytt, ekki síst á Íslandi þar sem um 90% innflutnings er innheimtur í öðrum myntum en krónu. Í greiningunni segir að á Íslandi hafi gengisleki (áhrif gengis á verðlag) yfirleitt verið metinn talsverður og því auðvelt að sjá hvernig gengisstyrking krónunnar undanfarið hefur haldið aftur af verðbólgu. Því gæti áframhaldandi styrkingarfasi haldið aftur af kostnaðar- og eftirspurnardrifinni verðbólgu.

Arion banki byggir niðurstöður sínar á rannsókn sem gerð var af Gita Gopinath hjá Harvard háskóla þar sem áhrif utanríkisviðskipta á verðbólgu voru könnuð. Í rannsókninni sem m.a. tekur til Íslands er fjallað um Alþjóðlegt verðkerfi.

Í þessu kerfi er hlutfall innflutnings sem greitt er fyrir með erlendum gjaldmiðli ágætis nálgun fyrir verðbólgunæmni tiltekins lands gagnvart gjaldmiðlahreyfingum. Þeim mun hærra sem þetta hlutfall er þeim mun næmari er innflutt verðbólga fyrir gengisbreytingum og þ.a.l. fyrir skellum á heimsmörkuðum. Gengisleki fer því að miklu leyti eftir umfangi erlendrar myntar í utanríkisviðskiptum.

Þar sem gjaldmiðill Íslands er smár fer meirihluti innflutnings fram í öðrum gjaldmiðlum, eða um 90%. Þar að auki er hagkerfið fremur háð innflutningi sem gerir heildaráhrifin á verðlag meiri heldur en í ríkjum minna háðum innflutningi, t.d. Japan. Því kemur ekki á óvart að gengisleki hér á landi virðist meiri en víða annars staðar.

Gengisleki á Íslandi – lítil verðbólga þökk sé styrkingu krónunnar

Samkvæmt greiningardeild Arion banka hafa minni verðbólguvæntingar, hagræðing fyrirtækja og lækkandi hrávöruverð, ásamt öðru, lagst gegn undirliggjandi verðbólguþrýstingi hér á landi sl. ár eða svo. Einnig hefur gengisstyrking krónunnar sl. 2 ár haft talsverð áhrif.

Mismunandi niðurstöður rannsókna á gengisleka hér á landi undirstrika að erfitt er að henda reiður á hversu mikill hann er. Ástæður þess eru margar, t.d. að áhrifin eru oft lengi að koma fram, verð innfluttra vara hafa óbeint áhrif á önnur verð, gengi krónunnar hefur áhrif á eftirspurn og þar að auki virðast áhrifin vera mismunandi yfir tíma. Þá eru einnig vísbendingar um að gengislekinn sé ósamhverfur, þ.e. að áhrif gengisbreytinga eru mismikil eftir því hversu stór breytingin er og hvort um er að ræða veikingu eða styrkingu. Allt þetta spilar vafalítið inn í að gengislekinn hefur verið metinn á nokkuð breiðu bili.

Færa rök fyrir því að krónan muni styrkjast á næstunni.

Undanfarið hefur greiningardeildin fært rök fyrir því að krónan muni styrkjast á næstunni, sem myndi áfram halda aftur af undirliggjandi verðbólguþrýstingi. Í samtekt deildarinnar er þó tekið fram að alltaf sé mikil óvissa þegar kemur að gengi gjaldmiðla og ekki þurfa að eiga sér stað stórkostlegar breytingar til að við horfum fram á veikara gengi krónu eftir t.d. ár. Einnig gæti mikil gengisstyrking, eins og við höfum fjallað um, þýtt það að gengið falli með hraði síðar.

Áhugasamir geta kynnt sér niðurstöður greiningardeildarinnar hér.