Að jafnaði voru 192.232 manns á aldrinum 16 til 74 ára starfandi samkvæmt skrám á fyrsta ársfjórðungi 2019. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Af þeim voru konur 90.315, eða 47,0% og karlar 101.918, eða 53,0%. Starfandi innflytjendur á aldrinum 16-74 ára voru að jafnaði 36.844 á fyrsta ársfjórðungi 2019, eða 19,2% af öllum starfandi.

Þegar horft er til búsetu kemur í ljós að á fyrsta ársfjórðungi 2019 voru starfandi með skráð lögheimili á Íslandi að jafnaði 187.859, eða 97,7% allra starfandi. Alls höfðu 154.753 lögheimili hér á landi og einhvern íslenskan bakgrunn, eða 80,5% af öllum starfandi. Af innflytjendum voru 33.106 með lögheimili á Íslandi, eða 89,9% en 3.738 höfðu ekki lögheimili á Íslandi, eða 10,1%.

Frá fyrsta ársfjórðungi 2013 hefur hlutfall innflytjenda af fjölda starfandi farið vaxandi í öllum landshlutum. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 var hlutfallið hæst á Suðurnesjum og á Vestfjörðum og hafði aukist frá fyrsta ársfjórðungi 2016. Lægst er hlutfallið á Norðvesturlandi.