*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 16. september 2020 13:52

Innflytjendur ríflega 55 þúsund íbúa

Innflytjendum fjölgaði úr 8% í 15,2% frá 2012. Fjórðungur íbúa með erlendan bakgrunn ef 2. kynslóð og erlendur uppruni er talinn með.

Ritstjórn
Fjöldi íslenskra atvinnugreina hafa fengið mikinn liðsauka í fjölda innflytjenda landsins, en fjölmennasti hópurinn eru Pólverjar sem eru um 37% allra innflytjenda á landinu og 5,6% landsmanna.
Haraldur Guðjónsson

55.354 innflytjendur voru á landinu í ársbyrjun, eða 15,2% heildarmannfjöldans þá sem nam 364.260 á landinu öllu að því er Hagstofa Íslands greinir frá

Það er aukning frá sama tíma ári fyrr þegar þeir voru 50.271 en þá voru þeir 14,1% landsmanna  Af fjöldanum í ársbyrjun nú voru 20.477 frá Póllandi, eða 37% allra innflytjenda, en það samsvarar um 5,6% allra landsmanna. Næstfjölmennasti hópurinn voru Litháar eða 5,9%, og Filippseyingar eða 3,8% innflytjenda á landinu.

Aldrei fleiri fengið hæli hér á landi

Aldrei hafa fleiri fengið svokallaða alþjóðlega vernd á Íslandi, áður stöðu flóttamanns, eða hæli, en á síðasta ári hér á landi, eða 468 einstaklingar, en árið 2018 voru þeir 247. Voru flestir þeirra sem fengu þessa stöðu í fyrra með venesúelskan ríkisborgararétt eða 155, en þar á eftir voru þeir sem eru með sýrlenskan eða 71 einstaklingur.

Fjölgun umsókna milli ára var nokkuð minni, eða úr 713 árið 2018 í 813 árið 2019. Alls voru gefin út 2.105 ný dvalarleyfi til einstaklinga utan EES svæðisins á árinu 2019 samanborið við 1.952 árið 2018.

Nálega fjórðungur með erlendan bakgrunn

Til viðbótar innflytjendum sem hingað komu í leit að vinnu eða vernd fjölgaði annarri kynslóð innflytjenda á síðasta ári úr 5.264 í 5.684 sem samsvarar tæplega 1,6% íbúa landsins svo heildarfjöldi fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda í landinu má telja að hafi verið 61.038 eða 16,8% mannfjöldans í ársbyrjun 2020.

Einnig fjölgaði lítillega einstaklingum á landinu með erlendan bakgrunn á árinu 2019, og eru þeir nú 7,0% mannfjöldans, en til þeirra teljast einstaklingar þar sem annað foreldrið er erlent, eða ef viðkomandi er fæddur erlendis þó eigi foreldra fædda hér á landi.

Annarrar kynslóðar innflytjandi eru hins vegar þeir sem eru fæddir hér á landi en eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Þar með ætti hlutfall fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda og annarra landsmanna af erlendum bakgrunni að vera 23,8% íbúa landsins.

Í fyrra fengu 437 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt og er það nokkur fækkun frá fyrra ári þegar 569 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang. Af þeim 437 einstaklingum sem fengu íslenskt ríkisfang höfðu langflestir áður verið með pólskt ríkisfang, eða 131, og næst flestir verið með ríkisfang frá Víetnam, eða 30.