Innganga í Evrópusambandið er gylliboð en ekki töfralausn, sagði Kristján Þór Júlíusson meðal annars í framboðsræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins rétt í þessu.

Fundarmenn klöppuðu  vegna þessara ummæla en báðir formannsframbjóðendurnir þeir Kristján Þór og Bjarni Benediktsson hafa tekið afgerandi afstöðu gegn ESB-aðild á fundinum. Sá síðarnefndi sagði að ESB-aðild væri ekki brýnasta verkefni stjórnmálanna í dag.

Kristján Þór sagði meðal annars í framboðsræðu sinni að tiltrú flokksins hefði beðið hnekki, meðal almennings en ekki síður meðal sjálfstæðismanna.

Hann sagði að þótt margt hefði verið sjálfstæðismönnum mótdrægt „þá ráðum við því sjálf hvernig úr rætist," sagði hann. Það væri sjálfstæðismanna, sagði hann, að bregða sverðinu hátt á loft í stað þess að sitja með hendur í skauti.

„Það er undir okkur sjálfum komið hvort Sjálfstæðisflokkurinn nær aftur að skapa það traust sem honum ber," sagði hann. Landsfundurinn gæti markað nýja tíma með nýtt upphaf, nýja forystu og nýjar áherslur.

Undir lok ræðunnar risu fundargestir úr sætum og hylltu hann með lófaklappi.