Gengi krónunnar styrktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum í viðskiptum dagsins. Mest styrktist hún gagnvart Bandaríkjadal eða um 1,03% sem fæst nú á ríflega 135 íslenskar krónur. Krónan styrktist gagnvart evru um 0,62% og fæst evran nú á tæplega 161 krónu.

Sjá einnig: Krónan styrktist í dag

Íslenska krónan styrktist gagnvart breska pundinu um 0,3% í viðskiptum dagsins sem fæst nú á ríflega 174 krónur. Hún styrktist um 0,76% gagnvart sænsku krónunni en það sem af er ári hefur íslenska krónan veikst mest gagnvart þeirri sænsku eða um 20%.

Í síðustu viku tilkynnti Seðlabanki Íslands um reglulega sölu gjaldeyris á innlendum gjaldeyrismarkaði frá og með deginum í dag. „Markmiðið er að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum. Inngrip Seðlabankans munu ávallt fara fram eigi síðar en klukkan 10:00 árdegis en þau koma bersýnilega fram þar sem mest hreyfing á gengi krónunnar fór fram á milli klukkan 9:00-10:00 í morgun.

Íslenska krónan hefur veikst um tæplega 20% gagnvart svissneska frankanum, dönsku krónunni og evrunni á þessu ári en um 12,7% gagnvart Bandaríkjadal og 9,8% samanborið við breska pundið.

Sjá einnig: Boðar 40 milljarða gjaldeyrissölu

Í tilkynningu Seðlabankans kemur einnig fram að hann muni frá með deginum í dag til mánaðarloka selja viðskiptavökum þrjár milljónir evra, jafngildi 482 milljónir króna, hvern viðskiptadag. Seðlabankinn áskilur sér samt fullan sveigjanleika til þess að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd sölunnar til að tryggja skilvirkni aðgerðarinnar.