Seðlabanki Íslands greip inn í á gjaldeyrismarkaði í gær með krónukaupum fyrir 6 milljónir evra, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Er þetta í fjórða sinn frá gamlársdegi sem bankinn beitir inngripum á gjaldeyrismarkaði með þessum hætti. Síðast greip bankinn inn í þann 11. febrúar.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á stýrivaxtafundi fyrr í febrúar að með inngripunum sé ekki reynt að styrkja gengið heldur sé ætlunin að jafna gjaldeyrisflæði og draga úr sveiflum krónunnar.

Daníel Svavarsson forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans
Daníel Svavarsson forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Haft var eftir Daníel Svavarssyni, forstöðumanni hagfræðideldar Landsbankans, í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins að inngripin gætu haft neikvæð áhrif á lánshæfismat erlendra matsfyrirtækja. „Niðurstaða Icesave-málsins hefur ýtt undir að lánshæfi ríkissjóðs hækki á erlendum mörkuðum. Það er þó almennt viðurkennt að matsfyrirtækin munu ekki líta það blíðum augum að verið sé að eyða skuldsettum gjaldeyrisforða í inngrip á gjaldeyrismarkaði. Aðgerðirnar gætu því orðið til þess að vega á móti hækkun lánshæfiseinkunna,“ segir Daníel og tekur fram að til þessa hafi lágar upphæðir verið undir í inngripunum. „En það safnast þegar saman kemur,“ segir hann