Kristrún Mjöll Frostadóttir, nýútskrifaður hagfræðingur og sérfræðingur hjá greingardeild Arion banka, gerði greiningu í BS-verkefni sínu á því hversu vel hefði tekist að koma í veg fyrir útflæði fjármagns úr landinu með gjaldeyrishöftum. Skipti hún haftatímabilinu upp í tvennt, fyrir og eftir októbermánuð 2009. Ástæðan var sú að í október 2009 var hert eftirlit með útflæði fjármagns og leyft var innflæði fjármagns á ný.

Helstu niðurstöður voru þær að gengisstyrking varð á seinna tímabili hafta og dró mjög úr gengisflökti krónunnar strax við upphaf fyrsta haftatímabils haustið 2008.Inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði frá og með október 2008 skekkja þó jákvæðar niðurstöður fyrra haftatímabils og benda til þess að höftin hafi ekki haldið sem skyldi þar til eftirlit með útflæði fjármagns var hert einu ári síðar.

Inngrip Seðlabankans

Gjaldeyrishöft voru innleidd en Seðlabankinn stóð samt í markaðsinngripum á fyrsta árinu sem þýðir að þeir voru að kaupa krónur til að halda genginu uppi, en ef verið er með höft sem virka sem skyldi þá á ekki að þurfa á þessum inngripum að halda. Þá segir Kristrún að til þess að gengi falli ekki enn frekar og að seðlabanki verði ekki uppiskroppa með gjaldeyri geta stjórnvöld gripið til þess ráðs að setja höft á útflæði fjármagns eins og hér var gert. Markaðsinngrip seðlabanka er aðferð til að bregðast við veikingu gjaldmiðils með því að selja erlendan gjaldeyri og kaupa innlendan í von um að aukin eftirspurn nægi til þess að halda genginu uppi. Hætta er á að seðlabanki gangi of hratt á gjaldeyrisforða sinn ef þörf á markaðsinngripum verður mikil samkvæmt Kristrúnu. Hérlendis voru bæði gjaldeyrishöft og markaðsinngrip en þess ætti ekki að þurfa. „Mikil inngrip á fyrsta tímabilinu er skýrasta vísbendingin um það að höftin hafi ekki haldið,“ segir Kristrún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.