Gengi krónunnar hefur styrkst um tæpt prósent það sem af er degi og kemur það í kjölfar 1,7% styrkingar í gær. Að því er sérfræðingar á markaði segja þá skiptir miklu að Seðlabankinn hefur hækka upphæðir þær sem hann selur af gjaldeyri auk þess sem mánaðamót eru framundan og margir þurfa að skipta yfir í krónur.

Seðlabankinn greip einu sinni inn í markaðinn í gær en kom þá með helmingi hærri upphæð en áður. Til þessa hefur bankinn keypt fyrir 250.000 evrur af hverjum og einum banka þegar hann hefur gripið inní markaðinn en í gær keypti hann fyrir 500.000 evrur.  Í kjölfarið fylgdu aðrir kaupendur og krónan endaði í talsverðri styrkingu eftir að hafa veikst framan af degi.

Seðlabankinn endurtók leikinn í morgun og í kjölfarið komu aðrir kaupendur.

Vitaskuld eru væntingar um að krónan sé að fara í styrkingarfasa og benda þá sérfræðingar á að hugsanlega ráði þarna breytt afstaða nýs seðlabankastjóra auk þess sem nú hyllir í niðurstöðu Icesave málsins sem getur liðkað fyrir erlendri lánafyrirgreiðslu. Einnig hefur verið bent á að margir sem hafi tekjur í evrum en kostnað í krónum séu nú að skipta yfir til að eiga fyrir næstu mánaðamótum og það geti ytt undir styrkinguna.