Líkur eru á að fyrirhugaðar breytingar á rannsókn og saksókn skattalagabrota muni leiða til þess að árangur af innheimtu skattsekta muni verða verri en í núgildandi kerfi. Fyrirhugaðar breytingar muni einnig leiða til þess að heimildir til að „útiloka dæmda skattsvikara frá rekstri […] munu síður bíta en áður“.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Skattrannsóknarstjóra (SRS) við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á fyrirkomulagi rannsóknar og saksóknar í skattalagabrotum. Frumvarpið er viðbragð ríkisins við dómum Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að framkvæmd málaflokksins hér á landi bryti gegn banni við tvöfaldri refsingu og tvöfaldri málsmeðferð.

Meðal efni frumvarpsins er að embætti SRS verður lagt niður í núverandi mynd og fært undir valdsvið Skattsins. Rannsókn minniháttar skattalagabrota mun því færast þangað og heimildir til að ljúka málum með sektum á stjórnsýslustigi verður aukin. Áður þurfti SRS að senda mál til yfirskattanefndar sem ákvarðaði sektir en slík meðferð var háð samþykki grunaðs. Rannsókn sakamála færist á móti til héraðssaksóknara enda þurfi „rannsakandi að fara með lögregluvald“.

Kallar á mótleiki

„SRS telur á engan hátt rétt að sakamálarannsókn þurfi að vera stýrt af hálfu lögreglu, heldur þvert á móti er einmitt gert ráð fyrir því í lögum að öðrum stjórnvöldum en lögreglu verði fengið það hlutverk að rannsaka sakamál,“ segir í umsögn embættisins.

Í frumvarpinu er lagt til að SRS verði heimilt að leggja á sektir samkvæmt refsiákvæðum skattalaga og að þær geti numið allt að 100 milljónum króna. Fésektir vegna skattalagabrota skulu aldrei nema lægri fjárhæð en tvöfaldri vantalinni fjárhæð og því felur þetta í sér heimild til að allt að 50 milljóna króna skattalagabrotamálum verði lokið á stjórnsýslustigi. Í frumvarpinu er þess getið að þessi framkvæmd sé líkleg til að leiða til aukins innheimtuárangurs en lægri sektir hafa hingað til, eðli málsins samkvæmt, innheimst betur en hærri sektir.

„Við blasir að sá munur sem verið hefur á innheimtuárangri er líklegur til að vera fyrst og fremst tilkominn vegna þess að sektir nú lagðar á innan skattkerfisins eru mun lægri en sektir dæmdar af dómstólum. […] Í þessu sambandi telur SRS ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því að eitt árangursríkasta úrræðið til að tryggja innheimtuárangur hefur verið heimild til kyrrsetninga eigna undir rannsókn máls hjá SRS,“ segir í umsögninni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .