Ekki er hægt að innheimta verðbætur af lánum nema skýrt sé tekið fram að samningurinn sé verðtryggður. Þetta segja þeir lögmenn sem Viðskiptablaðið hefur ráðfært sig við, en í síðustu viku greindi blaðið frá því að fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hefði sl. vor farið að innheimta verðbætur og vexti af verðbótum á bílalánum sem voru að hluta til veitt í myntkörfu en að hluta til í íslenskum krónum og eru þannig gengistryggð.

Hópur viðskiptavina Lýsingar heldur því fram, með vísan í 4. grein samninganna, að samningarnir séu ekki verðtryggðir og fyrirtækinu því ekki heimilt að innheimta verðbætur.

Í samningum Lýsingar við viðskiptavini sína kemur þó fram að leigugjald, m.ö.o. afborganir af bílalánum, taki breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. grein samninganna. Þar er tilgreind breyting vaxta eftir því hvort samningar eru óverðtryggðir, verðtryggðir eða gengistryggðir.

Jafnframt kemur þar fram að í fyrirsögn samninganna, sem og í 4. grein þeirra, komi fram hvort samningarnir eru verðtryggðir, óverðtryggðir eða gengistryggðir. Í sömu grein kemur fram að sé samningur verðtryggður taki afborganir mið af vísitölu neysluverðs og að það sé grunnvísitala skv. 4. grein samningsins.

Þá kemur fram að sé samningurinn gengistryggður miðist afborganir við breytingar sem verða á Libor vöxtum þeirra gjaldmiðla sem leigan (lánið) er veitt í.

Í fyrrnefndri 7. grein samninganna eru þó engin dæmi þess að samningar séu skilgreindir bæði sem verðtryggðir og gengistryggðir, heldur að þeir séu annað hvort. Þannig er t.a.m. ekkert sem gefur til kynna að íslenskur hluti myntkörfulána sé verðtryggður.

Tæknilegt, segir Lýsing

Í gögnum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, sést breyting á greiðsluseðlum bílalána. Þar sést hvernig Lýsing byrjaði að innheimta sérstaklega verðbætur á íslenskum hluta gengislána, þ.e. þeim hluta sem veittur var í íslenskum krónum, án þess að það hefði verið gert áður.

Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, bar því við í samtali við Viðskiptablaðið að Lýsing hefði fyrr á árinu uppfært tölvukerfi sitt, sem fæli það í sér að verðbæturnar væru nú aðgreindar sérstaklega en ekki væri um nýjan lið að ræða. Þannig hefðu útreikningar ekki breyst heldur framsetning.

Eins og fram kom í síðustu viku hefur Lýsing hætt við að innheimta verðbætur og vexti af verðbótum eftir að viðskiptavinir félagsins mótmæltu innheimtunni með þeim rökum að samningarnir væru ekki verðtryggðir.

Þá bíða nokkur þannig mál afgreiðslu hjá Neytendastofu.