MP banki mun frá og með miðjum ágústmánuði hefja innheimtu á viðskiptagjaldi af þeim viðskiptavinum sem ekki ná tilteknum viðmiðum bankans um viðskiptaumfang. Viðmiðið sem um ræðir er tvær milljónir króna. Einstaklingar þurfa þó ekki að eiga tvær milljónir inni hjá bankanum, heldur er um viðskiptaumfangið í heild að ræða.

Í samtali við mbl.is segir Hildur Þórisdóttir, yfirmaður starfsmanna- og kynningarmála hjá bankanum, að þeir sem ekki ná tilteknum viðmiðum geti annað hvort aukið viðskipti sín eða óskað þess að færa þau í annan banka.

Viðskiptagjaldið nemur 60 þúsund krónum á ári. Gjaldinu verður dreift og krafist 5000 króna greiðslu mánaðarlega.