Fréttir um hertar innheimtuaðgerðir hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarna viku.

Þar hefur því m.a. verið haldið fram að innheimtufyrirtæki séu að bjóða viðskiptavinum sínum að stytta innheimtuferlið, t.d. þannig að kröfur séu sendar í milliinnheimtu strax eftir eindaga.

Um helgina birtist m.a. grein í Morgunblaðinu eftir Álfheiði Ingadóttur, alþingismann VG, þar sem hún kallar eftir svörum frá fjármálaráðherra um hvar ákvörðun um hertar innheimtuaðgerðir hjá Intrum hafi verið tekin.

Tengist sú fyrirspurn eignarhaldi Intrum en Intrum á Íslandi og móðurfélag þess, Intrum Justitia, eru að hluta til í eigu Landsbankans sem nú er ríkisbanki.

Finnst Álfheiði þær aðgerðir ganga gegn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að nýju ríkisbankarnir muni leggja sig fram um að „minnka höggið sem skipbrot efnahagsstefnunnar hefur valdið" eins og hún orðar það í grein sinni.

Sigurður A. Jónsson, framkvæmdastjóri Intrum á Íslandi, segir fréttaflutning undanfarna daga vera mikinn misskilning. Fyrirtækið sé ekki í sérstökum aðgerðum við að hvetja viðskiptavina sína til að setja útistandandi kröfur fyrr í innheimtu.

„Staðan hjá okkur er einfaldlega þannig að við höfum í 11 ár unnið stanslaust að því að stytta innheimtuferla hjá fyrirtækjum. Mörg stærri fyrirtæki sem eru í viðskiptum hjá okkur vinna samkvæmt þeim ráðleggingum, sem að öllu jöfnu snýr að því að senda kröfu í frekari innheimtu 20 dögum eftir eindaga. Hins vegar má segja um þá viðskiptavini okkar sem ekki eru komnir í þetta ferli að við höfum verið að hvetja þá til þess síðustu árin. Það er því beinlínis rangt að sérstakt átak sé í gangi hjá okkur eins og mátti skilja á frétt RÚV í síðustu viku."

_______________________________________

Nánar er rætt við Sigurð A. Jónsson í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld, lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .