KPMG í Bandaríkjunum hefur hætt að sinna endurskoðun reikninga Herbalife og skóframleiðandans Skechers eftir að Scott London, fyrrverandi meðeigandi hjá KPMG var rekinn. London hefur viðurkennt að hafa látið utanaðkomandi mann fá innherjaupplýsingar um fyrirtæki sem hann endurskoðaði, en upplýsingarnar voru svo notaðar í hlutabréfaviðskiptum.

Í frétt Financial Times segir að KPMG telji sig ekki geta sinnt endurskoðun ársreikninga fyrirtækjanna tveggja vegna málsins og hefur Herbalife dregið til baka áritun endurskoðanda á reikningum fyrirtækisins fyrir árin 2010 til 2012. Fyrirtækin öll segja þó að ekkert bendi til annars en að ársreikningarnir séu réttir.

London hefur ekki veitt færi á viðtölum, en í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær segir hann að hann hafi aldrei sent frá sér skjöl, heldur hafi hann veitt félaga sínum ábendingar í samtölum. Hann hafi byrjað á þessu fyrir nokkrum árum, þegar félaginn var illa staddur fjárhagslega og frá þeim tíma hafi hann veitt honum ábendingar um kaup eða sölu á bréfum fyrirtækja sem hann var endurskoðandi fyrir.