Innherjar halda áfram að bæta við sig í Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að Fjárfestingafélagið Grettir var að bæta við sig ríflega einu prósenti og er nú með 15,87% heildarhlutafjár. Í viðskiptunum skiptu rúmlega 122 milljónir hluta um hendur en ekki kemur fram hvert kaupgengið var.

Helstu eigendur Fjárfestingafélagsins Grettis eru: Landsbanki Íslands, Tryggingamiðstöðin og Sund.

Í gær var greint frá því að Magnús Kristinsson, stjórnarmaður í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka, hefði keypt 100 milljónir hluta í bankanum á genginu 18,85.

Viðskiptin fóru í gegnum félög í eigu Magnúsar, Smáey og MK-44, og keypti hvort félag 50 milljónir hluta. Kaupverðið nam 1,885 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.