Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur samþykkt nýjar reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja, sem koma í stað núgildandi reglna frá árinu 2006, og má búast við að þær verði birtar í Stjórnartíðindum á allra næstu dögum.

Kemur þetta fram í svari eftirlitsins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Samhliða þessari birtingu mun Fjármálaeftirlitið gefa út leiðbeinandi tilmæli um framkvæmd sömu reglna. Reglurnar og tilmælin ná til útgefenda fjármálagerninga og einnig til stjórnvalda og annarra sem fá innherjaupplýsingar í sínum störfum, rétt eins og núgildandi reglur gera.

Nokkrar opinberar stofnanir eru með regluverði, eins og fjármálafyrirtæki og aðrir útgefendur skuldabréfa verða að hafa. Má þar nefna Seðlabankann og Íbúðalánasjóð. Hins vegar eru til stofnanir, sem ekki ber skylda til að vera með eigin regluvörð en búa engu að síður yfir markaðsmótandi upplýsingum. Má þar nefna Hagstofuna og einstök ráðuneyti.